Flyt aftur heim árið 2025

Ég ætla ekki að borga skuldir óreiðumanna, Íslendingar sem vilja ekki borga skuldir annarra hafa bara tvo möguleika.

  1. Flytja úr landi
  2. Hætta að vinna

Ég vill vinna, ég byrjaði að vinna 12 ára, vann alla tíð með skóla, hef stofnað tvö sprotafyrirtæki sem bæði eru rekin með hagnaði og starfað hjá þremur sprota/útflutnings fyrirtækjum þess utan.

Ég hef aldrei átt bíl, engin börn, tók ekki námslán, fæ engar húsleigubætur né heldur vaxtabætur og þegar ég hef slasað mig hefur þjónustan ekki verið til fyrirmyndar.

Fyrir hrun tók ríkið c.a. 60% af kaupmætti mínum (tekjuskattur + vaskur + vörugjöld), fyrir það fékk ég sáralítið en var ánægður með að leggja mitt að marki í velferðarþjóðfélagi.

Nú er verið að hækka skattana, minnka þjónustuna, krónan orðin verðlaus en það skiptir ekki öllu því að krónan er bundin höftum og gjaldeyrir skammtaður af ríkinu.

Ég er ekki lengur stoltur af því að vera Íslendingur, Alþingi hyggst skuldsetja þjóðina upp fyrir haus og nota skattfé komandi kynslóða í vexti, þess utan á unga fólkið að bera allar byrðarnar því að "innistæðutryggingar" og verðtrygging sjá um að eldri kynslóðin búi við sömu lífskilyrði og fyrir hrun.

Ég hvet skynsama Íslendinga til að huga að því að koma sér úr landi, þá sérstaklega yngra fólk sem vill tryggja fjárhagslegt sjálfstæði sitt í komandi framtíð.

Ef ástandið á Íslandi skánar í framtíðinni þá er alltaf hægt að koma aftur, með gjaldeyri í vasanum verður líklegast leikur fyrir okkur að staðgreiða fasteignir og annað slíkt.

Fyrst eldri kynslóðir vilja eiga verðtryggðar krónur mæli ég með að við leyfum þeim það, ef það verður ekkert vinnufært fólk eftir til að kaupa af vörur og þjónustu þá skiptir ekki máli hversu verðtryggðar haftakrónurnar eru.

Ég fer utan í haust, sjáumst kannski 2025

Jarl


Hvert er þitt markmið í lífinu?

Nú þegar kreppan er komin á fullt vona ég að margir stansi við og hugsi sinn gang, velti fyrir sér markmiðum og leiðum að þeim.

Síðastliðin ár virðast margir hafa gleymt að peningar eru ekki markmið heldur ein af mörgum leiðum sem eru tiltækar til að ná settum markmiðum. Ég myndi brjóta markmiðin niður í fjóra þætti eða tvo ása, sjá eftirfarandi mynd.

 Markmið

 

 

 

 

 

 

 

 

Þú getur valið hvort aðrir eru hræddir við þig, bera virðingu fyrir þér eða hafa enga sérstaka skoðun á þér, einfaldir hlutir eins og klæðaburður og húðflúr hafa áhrif á hvar ókunnugir sjá þig á þessum skala. Eftir því sem fólk þekkir þig betur hafa athafnir þínar meiri áhrif og yfirborð minni áhrif.

Öryggi eða skemmtun, fjárhagslegt öryggi er gott dæmi um hlut sem er leiðinlegur, það væri mun skemmtilegra að eyða peningunum strax. Þetta má líka skoðast út frá áhugamálum eða því hvort fólk fer hreinlega úr húsi.

Peningar veita ekki virðingu, hræðslu né skemmtun en þeir eru verkfæri, verkfæri sem getur búið til virðingu, hræðslu eða skemmtun.

Margur milljónamæringur hefur með klækjum og brögðum eignast mikla peninga til þess eins að komast að því að enginn mun nokkurtíman bera virðingu fyrir honum, það eru dýrir peningar. 

Oft á tíðum eru til miklu betri verkfæri en peningar til að ná markmiðum okkar ef við bara vitum hver markmiðin okkar eru.

 

Að lokum vill ég velta upp nokkrum spurningum sem vonandi vekja fólk til umhugsunar.

Hvernig bíl átti Albert Einstein?

Hvernig hús átti Gandhi?

Hvernig sumarbústað átti Galileo?

Hversu ríkur var Adolf Hitler?


Breytingar á greiðslukerfum

Orsök heimskreppunnar sem nú gengur yfir er hvorki flókin né torskiljanleg, ástæðan er léleg áhættustýring. Í stuttu máli eiga vextir lána að vera í beinu hlutfalli við áhættuna á að lánin fáist ekki endurgreidd. Því miður var áhættustýringu íslenskra banka ábótavant.

Í langflestum löndum heims telst eðlilegt að ríkisvaldið sjái um að í landinu sé virkt greiðslukerfi, fyrir 20 árum var þetta tryggt með útgáfu peningaseðla en undanfarin 15 ár hafa rafrænar færslur orðið nánast einráðar á Íslandi.

Í raun má segja að greiðslukerfið hafi einkavæðst, því miður þýddi þetta að þegar bankarnir féllu hafði ríkið enga aðra kosti en að taka þá yfir því að öðrum kosti hefði greiðslukerfið stöðvast.

Til að hindra að svona lagað geti gerst aftur væri kannski ráð að ríkið myndi íhuga að skilja greiðslumiðlun og greiðslukerfin frá bankastarfseminni?

Ef ríkið tekur við greiðslumiðluninni mætti jafnframt breyta skattheimtu, færslur í greiðslukerfinu yrði ávalt að flokka og væri skattur innheimtur sjálfkrafa af færslunni. Þetta mætti gera fyrir tekjuskatt, virðisauka og fjármagnstekjuskatt.

Þó heimskreppan hafi byrjað hjá bönkunum hefur hún hrundið af stað stærra vandamáli sem er lánastarfsemi og áhættustýring venjulegra fyrirtækja. Í fyrirtækjaviðskiptum tíðkast að versla í reikning, þá lánar söluaðili kaupanda í skamman tíma, áhættustýring þessara lána lítil sem engin.

Um leið og lánsfjármagn frá bönkunum þurrkaðist upp hættu fyrirtækin að lána, neituðu að afgreiða vörur fyrr en reikningurinn væri greiddur. Þá kom upp sú undarlega staða að öll fyrirtækin skulduðu hvor öðru og öll þeirra neituðu að afgreiða vörur nema fá borgað. Þessi pattastaða leiðir svo af sér frekari samdrátt og gjaldþrot fyrirtækja.

Erlendar ríkisstjórnir dæla nú gríðarlegum upphæðum í hagkerfi sín til að reyna að leysa úr þessu vandamáli og fá vörur/peninga til að flæða aftur en árangurinn lætur á sér standa.

Þetta mætti leysa með einfaldri aðgerð, banna lánastarfsemi fyrirtækja án bankaleyfis. Ég er ekki að tala um að banna reikningsviðskipti, einfaldlega að beina þeim í gegnum bankana. Þetta myndi tryggja að lán þessi fengju eðlilegt áhættumat og að fyrirtæki gætu áfram átt viðskipti gegn staðgreiðslu þegar fjármagnsmarkaðir þorna upp.

Gaman væri að fá álit hagfræðings á þessum þremur aðgerðum:

1. Ríkið tekur yfir greiðslukerfin

2. Skattur innheimtist sjálfkrafa í greiðslukerfinu

3. Fyrirtækjum öðrum en bönkum og tryggingafélögum bannað að stunda lánastarfsemi.


Áhugi einstaklings á frétt

Fór að velta fyrir mér hvernig mætti túlka í tölum hversu áhugaverð frétt er fyrir einstakling og komst á endanum að því að eftirfarandi formúla ætti að gefa nokkuð góða niðurstöðu.

 Formúla


Lýðræði og stjórnsýsla 21 aldarinnar

Lýðræði og stjórnsýsla 21 aldarinnar:

Er ekki kominn tími til að laga stjórnsýslu landsins að breyttum aðstæðum, núverandi kerfi á betur við víkingaöld en það þjóðfélag sem við búum við í dag.


Drög að breyttu stjórnkerfi:

Kosningar sem fara fram á Alþingi verða stafrænar og opnar öllum ríkisborgurum, sett verður upp kosningavefsíða þar sem borgarar geta fræðst um þau mál sem tekin eru fyrir á Alþingi og kosið.

 Á kosningavefnum verður hægt að kjósa flokka, einstaklinga eða um einstök málefni, geta þá borgarar ráðið hversu mikinn þátt þeir taka í störfum Alþingis, einnig geta þeir hvenær sem er á kjörtímabili flutt sitt atkvæði milli flokka, stjórnmálamanna eða kosið beint um ákveðin málefni.

Að sjálfsögðu þarf að koma á móts við þá sem hafa ekki eðlilegan aðgang að vefsíðunni, setja þarf upp þjónustustöðvar stjórnsýslunar þangað sem allir borgarar geta gengið inn og fengið aðgang að rafrænu stjórnsýslunni og aðstoð við notkun hennar.

Þegar uppbyggingu þjónustumiðstöðva er lokið mætti leggja niður beina þjónustu flestra stofnanna, fólk gæti þá nálgast flest alla opinbera þjónustu á netinu eða hjá þjónustufulltrúa í þjónustumiðstöð.

 Leiðin að nýju stjórnkerfi:

 Núverandi stjórnmálamenn væru sjálfsagt margir tregir til upptöku nýja kerfissins svo að líklegast þyrfti innsprautun af nýju fólki til aðgerða, hugsa mætti sér að eftirfarandi væri góð leið:
Stofnaður er nýr stjórnmálaflokkur, mætti t.d. heita "Lýðræðisflokkurinn" , hver sem undirritar stuðningsyfirlýsingu og skráir sig í flokkinn fær úthlutað notendanafni og lykilorði. Aðal markmið flokksins yrði að sjálfsögðu alltaf að koma á breyttu stjórnkerfi eins og áður var lýst en jafnframt væri hægt að mynda stefnu um önnur mál á svipaðan hátt og áður var lýst, skráður félagi  gæti kosið um málefni eða kosið einstaka menn innan flokksins. 

Rafræn fjármál:

Á 21 öldinni hefur margt breyst, á síðustu öld tók daga og vikur að gera einföldustu hluti í banka og peningakerfum sem í dag taka millisekúndur. Mælitæki þjóðríkja hafa ekki haldið í við þessa þróun, bókhald og skattskil eru að mestu enn eins og á miðöldum. Skattskil eru í versta falli árleg en besta falli mánaðarleg og ef opinber aðili vill skoða bókhald fyrirtækis tekur það mánuði og jafnvel mörg ár.  Bókhald fyrirtækja er jafnvel orðið svo flókið með kross eignatengslum og viðskiptavild að þeir menn sem stýra fyrirtækjunum vita ekki stöðuna. Þetta útskýrir einnig afverju enginn vill kannast við að vera ábyrgur fyrir nýlegu hruni fjármálamarkaðsins, flestir vissu hreinlega ekki hvað var í gangi.
 Til að koma í veg fyrir fjármálaleg stórslys eins og það sem nýlega varð verðum við að breyta lögum um upplýsingagjöf. Þar sem nánast allar peningafærslur gerast í rauntíma gegnum kortafyrirtæki og banka finnst mér eðlileg krafa að ríkið fá afrit af öllum færslum í rauntíma. Fyrirtæki gætu þá valið um að halda bókhald í rauntíma gegnum netkerfi hjá skattstjóra eða reka sitt eigið kerfi sem myndi daglega senda uppfærslu til skattstjóra.
Með slíkar upplýsingar gæti Fjármálaeftirlitið, Ríkið og Seðlabankinn fengið rauntíma skýrslur og gögn þar sem búið væri að leysa allar flækjur og raunveruleg staða kæmi í ljós, 21 aldar upplýsingakerfi fyrir 21 aldar fjármálakerfi.

Um bloggið

Jarl

Höfundur

Jarl
Jarl

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Markmið
  • Formúla
  • Gengi

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.4.): 8
  • Sl. sólarhring: 9
  • Sl. viku: 10
  • Frá upphafi: 106

Annað

  • Innlit í dag: 8
  • Innlit sl. viku: 10
  • Gestir í dag: 8
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband